Erlent

Bush hyggst draga 5700 hermenn heim frá Írak

George Bush Bandaríkjaforseti hyggst fara að ráðum Petreaus hershöfðingja og draga heim 5700 hermenn fyrir árslok.

Í sjónvarpsræðu sem Bush flytur í kvöld að staðartíma mun hann einnig tilkynna um að hann muni fækka hersveitum úr tuttugu í fímmtán. Þetta hefur Reuters fréttastofan eftir háttsettum embættismönnum í Bandaríkjunum.

Þetta er í samræmi við þær ráðleggingar sem komu fram í skýrslu sem David Petraeus hershöfðingi, og Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjanna í Írak kynntu fyrir Bandaríkjaþingi í vikunni.

Í skýrslunni mæltu þeir með því að smám saman yrði fækkað um þrjátíu þúsund hermenn frá  þeim 169 þúsund sem nú eru í Írak. Fjöldi hermanna yrði þá jafnmikill í landinu og hann var áður en Bandaríkin hófu aukningu á heraflanum í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×