Erlent

Sökktu norskum hvalbáti til að fagna hvalveiðistoppi á Íslandi

Þórir Guðmundsson skrifar

Samtök hvalveiðiandstæðinga í Bandaríkjunum segjast hafa sökkt hvalbáti í Norður-Noregi í fagnaðarskyni yfir ákvörðun Íslands að hætta hvalveiðum.

Samtökin Agenda 21 segjast hafa fjarlægt kælirör í vélarrúmi hrefnuveiðiskipsins Willassen Senior þar sem skipið lá við bryggju í Svolvær í norður Noregi þann þrítugasta ágúst. Tilgangurinn hafi verið að fagna ákvörðun Íslendinga að veiða ekki stórhveli á komandi vertíð.

Magnús Þór Hafsteinsson varaformaður Frjálslynda flokksins segir að ljóst sé að hvalveiðiandstæðingar séu að notfæra sér í áróðursstríði það að ríkisstjórn Íslands hafi gugnað í hvalamálinu.

Nú er 21 ár síðan útsendarar Sea Shepherd samtakanna sökktu hvalbátum í Reykjavíkurhöfn. Samtökin segja að frá 1992 hafi fimm hvalbátum verið sökkt í Noregi, nú síðast Willassen Senior.

Willassen fjölskyldan sem á bátinn, hefur gert út á hrefnu frá því fyrir seinna stríð. Í dag var verið að koma bátnum á flot. Óljóst er hversu miklar skemmdirnar eru eða hvenær báturinn kemst á veiðar á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×