Erlent

Pastalaus dagur á Ítalíu

Það verður ekkert pasta á borðum Ítala í kvöld fari þeir eftir tilmælum neytendasamtaka í landinu. Samtökin biðja þjóðina að kaupa ekkert pasta í sólarhring til að mótmæla því sem þau kalla óútskýranlegar verðhækkanir á vörum úr hveiti. Mótmælendur söfnuðust í dag saman fyrir utan ítalska þingið og kröfust þess að stjórnvöld hjálpi til að leysa vandann. Þá funduðu bænda- og neytendasamtök með yfirvöldum, sem þau vilja að rannsaki pastaiðnaðinn.

Durum hveiti, sem er notað í pastaframleiðslu, er einnig notað til að framleiða lífdísel, og því hefur eftirspurn eftir því aukist og þar með verðið. Bændur fría sig ábyrgð á verðhækkununum, og segja að verð á hveiti frá þeim hafi ekki hækkað. Þvert á móti hafi það lækkað, og sé nú einu senti ódýrara en það var fyrir tuttugu árum síðan.

Hvert mannsbarn á Ítalíu borðar að meðaltali 28 kíló af pasta á ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×