Erlent

Verðbólga úr öllum böndum í Zimbabwe

Verðbólga í Zimbabwe hefur náð áður óþekktum hæðum og var hún 7,638 prósent í júlí. Þetta er samkvæmt fyrstu opinberu tölum sem stjórnvöld birta í þrjá mánuði. Hagstofa landsins segir verðbólgu hafa tvöfaldast frá því í maí, og er hún hvergi meiri.

Neytendasamtök í Zimbabwe segja verðbólgu vera mun hærri en opinberar tölur gefa til kynna, eða nær þrettán þúsund prósentum.

Þá varaði Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn við því í síðasta mánuði að verðbólga gæti ná hundrað þúsund prósentum fyrir lok ársins.

Í tilraunum sínum til að sporna við verðbólgunni hafa stjórnvöld í Zimbabwe nú skipað verslunarmönnum að lækka verð á vörum, og varpa þeim sem ekki hlýða í fangelsi. Þá gáfu þau í síðasta mánuði út 200 þúsund Zimbabwe dollara seðil.

Óðaverðbólgan meðal annars hefur verið rakin til slakrar efnahagsstjórnunar ríkisstjórnar Roberts Mugabe, og þess að landið hefur ekki verið sjálfbært með matvæli síðan býli fjögurra þúsunda hvítra bænda voru gerð upptæk í umdeildum aðgerðum árið 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×