Erlent

Styrkur Dean dvínar

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
MYND/Getty

Fellibylurinn Dean ferðast nú yfir Yukatan skaga með ofsavindi og úrhellisrigningu.

Bylurinn er að veikjast. Vindhraði er nú um 56 metrar á sekúndu og mælist stormurinn nú tveir á Saffir-Simpsons kvarða að sögn bandarísku fellibyljastofnunarinnar. Hann mældist mest fimm, sem er hæsti styrkur storms á kvarðanum. Talið er að hann gæti styrkst aftur þegar hann fer yfir sjó áður en hann nær meginlandi Mexíkó.

Dean náði um tíma 71 metra hraða á sekúndu að meðaltali. Til samanburðar má geta þess að sterkasti vindur sem mælst hefur hér á landi var 74,2 metrar á sekúndu, í ríflega þúsund metra hæð á Gagnheiðarhnjúki á Fjarðarheiði árið 1995. Sterkasta hviða sem mælst hefur í Reykjavík var hinsvegar 59,4 metrar á sekúndu árið 1942. Mesti stöðugi vindhraði sem mælst hefur hérlendis voru 62,5 metrar á sekúndu í tíu mínútur, á Skálafelli við Esju í janúar 1998.



Tugir þúsunda ferðamanna hafa flúið ferðamannastaði á Yukatan skaga. Fjöldi er enn á skaganum, og hafa leitað skjóls í neyðarskýlum.

Gestir á hóteli í borginni Chetumal sögðu ástandið skelfilegt. Á nokkurra mínútna fresti heyrðist í rúðu í húsinu springa undan veðurofsanum.

Bandaríska fellibyljastofnunin býst við að miklar rigningar verði í Yukatan skaga, Belize, Guatemala og norður- Hondúras, sem gætu valdið flóðum og aurskriðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×