Erlent

Yfir 200 láta lífið í flóðum í Norður-Kóreu

Norður-kóreskar konur reyna að hreinsa aur af vegi sem hefur farið undir vatn.
Norður-kóreskar konur reyna að hreinsa aur af vegi sem hefur farið undir vatn. MYND/AFP

Að minnsta kosti 221 hefur látið lífið og 80 er saknað í miklum flóðum sem nú geysa í Norður-Kóreu að sögn alþjóðlegra hjálparsamtaka. Talið er að um 300 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín og fjöldi húsa hafi skemmst.

Í gær fundu Suður-kóreskir landamæraverðir lík ellefu manna sem höfðu flotið niður ána Imjin frá Norður-Kóreu. Í flóðum síðastliðinna ára hafa lík flotið niður Imjin en aldrei jafn mörg í einu og fundust í gær.

Flóðin í Norður-Kóreu hafa valdið miklum skemmdum og að sögn Norður-kóreskra fjölmiðla er um 11 prósent af ræktarlandi landsins farið undir vatn. Í gær byrjaði að stytta upp eftir nánast látlausa úrkomu það sem af er ágústmánuði. Hjálparstarfsmenn frá Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum eru nú á flóðasvæðunum en mikill skortur er á matvælum og drykkjarvatni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×