Erlent

Óttast að gin- og klaufaveiki hafi breiðst út

Yfirvöld í Bretlandi kanna nú hvort búfénaður á nautgripabúi sem liggur fyrir utan sóttvarnarsvæðið í Surrey sé sýktur af gin- og klaufaveiki. Óttast menn að ráðstafanir stjórnvalda til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins hafi mistekist.

Nautgripabúið liggur í um tíu kílómetra fjarlægð frá sóttvarnarsvæðinu sem sett var upp eftir að gin- og klaufaveiki greindist fyrst í síðustu viku. Hingað til hefur gin- og klaufaveiki greinst á þremur nautgripabúum en þau eru öll innan sóttvarnarsvæðisins.

Yfirvöld í Bretlandi gripu strax til ráðstafana til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins og var meðal annars lagt bann við flutningi búfénaðar innanlands. Því banni var hins vegar aflétt að mestu í gær.

Fari svo að gin- og klaufaveiki greinist fyrir utan sóttvarnarsvæðið er það áfall fyrir yfirvöld á Bretlandi. Sérstakt sóttvarnarsvæði var settu upp í kringum nautgripabúið í morgun en vísindamenn rannsaka nú sýni sem tekin voru úr búfénaði þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×