Erlent

Bönnuðu myndir af Múhameð í hundslíki

Forsvarsmenn listasafns nærri Karlstad í Svíþjóð ákváðu á síðustu stundu að banna listamanni sem þar sýndi verk sín að birta þrjár myndir af Múhameð spámanni í hundslíki.

Eftir því sem fram kemur á vef Jótlandspóstsins áttu myndirnar þrjár að vera hluti af sýningu sem bar nafnið „Hundurinn í listinni" en stjórnandi safnins ákvað að banna þær af öryggisástæðum og til þess að móðga ekki múslíma.

Múslímar líta á myndir af spámanninum Múhameð sem guðlast og skemmst er minnast þeirra óeirða sem urðu víða í ríkjum múslíma í hitteðfyrra eftir að danska blaðið Jótlandspósturinn birti skopmyndir af spámanninum.

Listamaðurinn sjálfur, Lars Vilks, er hins vegar allt annað en ánægður með ákvörðunina og segir að ekki eigi að láta undan bókstafstrúarmönnum og ganga þannig á tjáningarfrelsið.

Athygli vekur að Jótlandspósturinn birtir eina af myndunum eftir Vilks á heimasíðu sinni, en bæði þeir sem teiknuðu Múhameðsmyndir fyrir blaðið á sínum tíma og stjórnendur blaðsins sættu líflátshótunum í kjölfar þess að blaðið birti myndir af spámanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×