Erlent

Rice og Gates funda með leiðtogum arabaríkja í Egyptalandi

Herstuðningur Bandaríkjanna til Ísraels, Egyptalands og Saudi Arabíu verður stóraukinn á næstu árum. Utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna funda nú með leiðtogum nokkurra arabaríkja í því augnamiði að fá stuðning þeirra til að aðstoða ríkisstjórnina í Írak og koma í veg fyrir frekari kjarnorkuáætlanir Írana.



Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Robert Gates varnarmálaráðherra komu til Egyptalands í morgun til að funda með leiðtogum nokkurra arabaríkja um ástandið í Írak. Markmið heimsóknar þeirra er að leita eftir stuðningi til að ráða bót á vanda Íraksstjórnar og fá Ísrael, Egyptaland og Saudi Arabíu í lið með sér til að koma í veg fyrir kjarnorkuáætlanir Írans.



Bandaríkin munu á næstu tíu árum selja löndunum vopn fyrir rúma sextíu milljarða bandaríkjadala. Meðal þeirra eru eldflaugavarnarkerfi, orrustuþotur og herskip.



Fundarhöld hjá sambandi arabaríkja hafa staðið yfir í Sharm el Sheikh frá því í gær. Arabaríkin hafa rætt tillögu George Bush Bandaríkjaforseta um að haldinn verði friðarfundur um málefni Mið-Austurlanda seinna á árinu.

Bush stjórnin vonast til að viðræður við leiðtoga nágrannaríkja Íraks beri árangur og að stríðsástandið þar verði rætt ásamt kjarnorkuáætlunum Írans. Bandaríkjamenn vilja að Saudi Arabía og önnur nágrannaríki beiti Írana fjárhagslegum þrýstingi til að koma í veg fyrir frekari kjarnorkuáætlanir þeirra.

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands og George Bush Bandaríkjaforseti lýstu því einnig yfir á blaðamannafundi í Camp David í gær að beita þyrfti Írana verulegum þrýstingi til að koma í veg fyrir frekari kjarnorkuáætlanir þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×