Erlent

Unglingar myrtir í Lundúnum

Sautján unglingar hafa verið skotnir eða stungnir til bana í Lundúnum á þessu ári. Breska lögreglan leitar nokkurra unglinga sem taldir eru tilheyra glæpagengi en þeir eru grunaðir um að hafa myrt sextán ára pilt í suðurhluta Lundúna í gær. Piltarnir eltu fórnarlambið uppi á hjólum í ninjubúningum og skutu til bana.

Bresku lögreglunni barst tilkynning skömmu eftir miðnætti í gær að skotum hefði verið hleypt af við íbúðarhús nærri Stockwell í suðurhluta Lundúna. Þegar lögreglan kom á vettvang fann hún þar sextán ára sómalískan pilt liggjandi í blóði sínu. Pilturinn var úrskurðaður látinn skömmu síðar. Lögreglan leitar nú fimm til sjö unglinga sem talið er að elt hafi piltinn uppi á BMX-hjólum, náð að króa hann af og svo skotið hann til bana.

Breska blaðið The Mirror greinir frá því að pilturinn sé sá sautjándi sem sé stunginn eða skotinn til bana í Lundúnum það sem af er þessu ári. Í lok síðasta mánaðar var fjórtán ára piltur stunginn til bana í af ungmennum í Islington í norðurhluta Lundúna. Talið er að ungmennin sem myrtu piltinn í gær hafi tilheyrt einhverskona glæpagengi.

Gripið hefur verið til sérstakra aðgerða til að reyna að koma í veg fyrir fleiri ungmennamorð og hafa lögregluþjónar fengið auknar heimildir til að stöðva ungmenni og leita að vopnum á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×