Erlent

Kona kjörin forseti Indlands í fyrsta sinn

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Fyrsti kvenforseti Indlands tók við völdum í dag eftir að hljóta tvo þriðju atkvæða í kosningum. Kjör Pratibha Patil þykir táknrænt og sigur fyrir konur í landinu sem verða fyrir mikilli mismunun af völdum kynferðis.

Mikil fagnaðarlæti brutust út á Indlandi í morgun þegar tilkynnt var að Patil hefði verið kjörin fyrsti kvenforseti landsins. Patil er 72 ára gömul flokkskona Congressflokksins og fékk fleiri atkvæði en varaforseti landsins, sem einnig bauð sig fram til embættisins auk leiðtoga stjórnarandstöðunnar.

Þó nokkrar konur eru nú í áhrifastöðum í indverskum stjórnmálum, en Indira Gandhi var fyrsti og eini kvenforsætisráðherra landsins. Dóttir hennar er nú leiðtogi Congress flokksins en Patil þykir sýna Gandhi fjölskyldunni mikla tryggð. Ekki eru þó allar konur ánægðar með valið á Patil. Gagnrýnendur segja að hún hafi verið dregin fram úr skugga Congress flokksins. Meðlimir flokksins hafi ekki vitað hver hún var fyrir kosningarnar.

Seema Mustafa fréttamaður Asian Age dagblaðsins segir að Patil hafi einungis verið valin af því hún er kona, en hins vegar sé hún alls ekki fulltrúi nútímakonunnar þar sem hún tali fyrir gamaldags gildum og gangi sem dæmi með höfuðslæðu.

Ólíkt fyrri forsetakosningum olli baráttan nú miklum deilum þar sem ásakanir gengu á víxl milli þingflokka um allt frá fjármálaóreiðu til ásakana um mútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×