Erlent

Paris Hilton ætlar að taka út sína refsingu

MYND/AP
Bandaríski hótelerfinginn Paris Hilton segist ekki ætla að aðhafast frekar vegna fangelsisvistar sinnar heldur sitja inni þann tíma sem dómstólar ákveði. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær hvetur hún fjölmiðla til þess að snúa sér að öðrum málum en hennar, til að mynda Íraksstríðinu.

Paris hóf afplánun sína vegna umferðarlagabrota fyrir um viku en eftir innan við þrjá daga var hún færð heim til sín og sett í stofufangelsi í staðinn. Að sögn lögreglustjórans í Los Angeles var það gert vegna þess að Paris glímdi við geðræn vandamál.

Við þetta sætti dómarinn í málinu sig ekki og sendi hana aftur í fangelsi. Náðu fjölmiðlar myndum af henni grátandi þegar hún var leidd út í lögreglubíl í fyrradag og keyrð í fangelsið.

Í yfirlýsingu sem Paris sendi frá sér í gær segist hún hins vegar ekki ætla að áfrýja úrskurði dómarans heldur taka út sína refsingu í fangelsinu. Hún var dæmd í 45 daga fangelsi en líklegt er talið að hún þurfi aðeins að afplána helming þess tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×