Erlent

Tími til kominn að Kosovo fái sjálfstæði

MYND/AP

George Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag að tími væri kominn til að tryggja Kosovo-héraði sjálfstæði í samræmi við áætlanir Sameinuðu þjóðanna. Þessi orð lét hann falla á blaðamannafundi eftir fund með Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, í Róm í dag.

Sjálfstæði Kosovo-héraðs frá Serbíu var til umræðu fundi leiðtoga átta helstu iðnríkja heims í vikunni en þar fékkst ekki niðurstaða í málið vegna harðrar andstöðu Rússa sem styðja Serba að málinum í deilunni.

Bush sagðist í dag hafa rætt við Vladímír Pútín, forseta Rússlands, um Kosovo-deiluna á fundi þeirra í Þýskalandi. Sagði hann að tími væri kominn til að hrinda í framkvæmd áætlun, sem Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og nú sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna gagnvart Kosovo, hefði sett fram í apríl.

Hún gerir ráð fyrir að Kosovo-hérað fái sjálfstæði undir alþjóðlegu eftirliti, fái inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar og eigin fána og þjóðsöng. Áætlun Ahtisaaris er nú til umræðu innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Bush fundaði í morgun með Benedikt sextánda páfa þar sem ástandið í Írak var meðal ananrs til umræðu. Lýsti páfi yfir áhyggjum af stöðu kristinna manna í landinu þar sem meirihluti landsmanna eru múslímar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×