Erlent

Áttuðu sig ekki á smæð Danmerkur

Björn Gíslason skrifar
MYND/AP

Aganefnd Knattspyrnusambands Evrópu féll á landafræðiprófinu þegar hún ákvað að refsa danska knattspyrnusambandinu fyrir ólætin í leik Dana og Svía á Parken í Kaupmannahaöfn um síðustu helgi.

Auk fjársektar var danska karlalandsliðinu gert að spila næstu fjóra leiki í 250 kílómetra fjarlægð frá Kaupmannahöfn en í ljós hefur komið að eini völlurinn í Danmörku sem er í þeirri fjarlægð er völlurinn í Esbjerg á Jótlandi sem tekur aðeins 5500 áhorfendur.

Tveir af þremur meðlimum aganefndarinnar viðurkenna í samtali við danska blaðið B.T. að ætlunin hafi ekki verið að færa leikina út fyrir Danmörku, þeir hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir hvað Danmörk væri lítið land.

Danska knattspyrnusambandið hefur þegar áfrýjað refsingunni en ef hún verður staðfest gætu Danir þurft að spila leikina í Gdansk í Póllandi, Hamburg í Þýskalandi eða jafnvel hjá frændum sínum Svíum í Stokkhólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×