Erlent

Mannréttindasamtök gefa út skýrslu um „horfna“ fanga

Gunnar Valþórsson skrifar
Mótmæli gegn fangaflutningum Bandaríkjamanna á Spáni á dögunum.
Mótmæli gegn fangaflutningum Bandaríkjamanna á Spáni á dögunum. MYND/AFP

Sex virt mannréttindasamtök gáfu í dag út nöfn og upplýsingar um 39 einstaklinga sem talið er að sé haldið föngnum í leynifangelsum Bandaríkjanna. Einnig hefur verið greint frá nöfnum ættingja hinna horfnu fanga sem sjálfir hafa valið í leynifangelsum. Þar er jafnvel um að ræða börn, allt niður í 7 ára aldur. Íslandsdeild Amnesty hefur sent sendiráði Bandaríkjanna hér á landi afrit af skýrslunni og þess krafist að viðkomandi fangar fái réttláta meðferð.

Málssókn hafin

Hafin hefur verið málsókn fyrir alríkisdómstól í Bandaríkjunum á grundvelli skýrslunnar þar sem þess er krafist að upplýsingar verði gefnar um mennina sem saknað er. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Amnesty á Íslandi en Amnesty International er á meðal þeirra samtaka sem að skýrslunni komu.

Skýrslan send til sendiráðsins á Íslandi

Í bréfi Íslandsdeildar Amnesty til sendiráðs Bandaríkjanna er þess krafist að „allir fangar sem nafngreindir eru í samantektinni verði fluttir í viðurkennda varðhaldsstofnun, fái aðgang að fjölskyldum sínum, lögfræðingum og heilbrigðisþjónustu og verði ákærðir eða þeim sleppt," segir í tilkynningunni. „Samtökin krefjast þess einnig að Bandaríkin bindi umsvifalaust enda á leynilegt framsal og varðhald og að nöfn, dvalarstaðir og staða allra fórnarlamba hins leynilega kerfis CIA verði gerð opinber."

7 ára drengur í varðhaldi

Skýrslan inniheldur nákvæmar upplýsingar um fjóra einstaklinga sem þar eru nefndir „horfnir" fangar í fyrsta sinn. Listinn í heild inniheldur nöfn 39 einstaklinga frá ýmsum löndum. Í skýrslunni segir að sumum ættingja hinna grunuðu hafi einnig verið haldið í leynilegu varðhaldi. Meðal þeirra eru eiginkonur hinna grunuðu og börn. Ungir synir Khalid Sheikh Mohammed voru handteknir í september 2002 þegar þeir voru aðeins sjö og níu ára gamlir. „Samkvæmt sjónarvottum var þeim haldið í fangelsi ásamt fullorðnum einstaklingum í minnst fjóra mánuði. Þeir voru yfirheyrðir af bandarískum leyniþjónustumönnum og spurðir um dvalarstað föður þeirra," segir í tilkynningunni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×