Erlent

Segist vita hvar Madeleine litla er niðurkomin

MYND/AP
Karlmaður hefur haft samband við spænsku lögregluna og segist vita hvar Madeleine McCann, breska stúlkan sem rænt var fyrir rúmum mánuði í Portúgal, er niðurkomin.

Frá þessu greinir Sky-fréttastofan og vísar í heimildarmenn innan spænsku lögreglunnar sem telur upplýsingar mannsins trúverðugar. Maðurinn greindi ekki frá nafni sínu í símtalinu og ekki liggur fyrir hvaðan hann hringdi. Hann óskaði hins vegar eftir því að fá að ræða við foreldra Madeleine litlu.

Þeir eru nú staddir í Þýskalandi og hugðust fara til Hollands í dag til að vekja athygli á leitinni en ákváðu að halda í breska sendiráðið í Berlín ef maðurinn skyldi reyna að hafa samband við þau.

Hin fjögurra ára Madeleine McCann hvarf af hóteli sem fjölskylda hennar dvaldi á í Praia da Luz í Algarve í Portúgal þann 3. maí en síðan þá hefur ekkert til hennar spurst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×