Erlent

Vilja stöðva fjölkvæni hjá sértrúarsöfnuði

MYND/Getty Image

Fylkisyfirvöld í Bresku Kólumbíu í Kanada hafa skipað sérstakan saksóknara til ákveða hvort höfða eigi mál á hendur bandarískum sértrúarsöfnuði sem þar hefur sest að. Söfnuðurinn stundar meðal annars fjölkvæni en það er bannað í Kanada.

Kanadíska yfirvöld hófu að rannsaka söfnuðinn fyrir tveimur árum í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar þar sem því var meðal annars haldið fram að í söfnuðinum væru stúlkur undir lögaldri neyddar í hjónaband með eldri karlmönnum. Saksóknarinn fer nú yfir rannsóknargögn til ákveða hvort gefin verður út ákæra. Hingað til hafa yfirvöld í fylkinu ekki þorað að gefa út ákæru á hendur söfnuðinum af ótta við að bann gegn fjölkvæni yrði talið stríða gegn stjórnarskrá landsins.

Söfnuðurinn settist að í Kanada í lok fimmta áratugar síðustu aldar en hann á upphaflega rætur sínar að rekja til Mormóna í Utah fylki í Bandaríkjunum. Samkvæmt lögmálum safnaðarins þurfa karlmenn að minnsta kosti að eiga þrjár eiginkonur ætli þeir að tryggja sér góðan stað á himnum. Talið er að um 1.200 manns séu söfnuðinum sem kenndur er við bæinn Bountiful í Bresku Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×