Erlent

Létu lífið þegar bananakassar hrundu yfir þá

Varðturn við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna.
Varðturn við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna. MYND/AFP

Sex létu lífið þegar stæður af bananakössum hrundi yfir þá í flutningabíl við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó í dag. Mennirnir voru að reyna smygla sér ásamt öðrum yfir landamærin til Bandaríkjanna þegar slysið átti sér stað. Tíu aðrir slösuðust.

Mennirnir sex sem létust voru frá Mið-Ameríku en talið er að allt 300 manns hafi verið í felum í bílnum í þeirri von að komast til Bandaríkjanna. Ekki er vitað hvað olli slysinu en talið er að bananakassarnir hafi einfaldlega látið undan þyngd þeirra sem lágu ofan á þeim með þeim afleiðingum að bæði fólk og kassar hrundu yfir þá sem fyrir neðan voru.

Bílstjóri flutningabílsins lét sig hverfa af slysstað og var á bak og burt þegar lögregluna bar að garði. Talið er að mörg hundruð flóttamenn láti lífið á hverju ári þegar þeir reyna að komast yfir landamæri til Bandaríkjanna. Flestir láta lífið af völdum ofþornunar eða hreinlega örmögnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×