Erlent

Taylor segist ekki ætla að taka þátt í leiksýningu

Charles Taylor lét ekki sjá sig í réttarhöldum sem hófust í morgun.
Charles Taylor lét ekki sjá sig í réttarhöldum sem hófust í morgun.
Charles Taylor, fyrrum forseti Líberíu, segist hafa misst trúnna á dómstólnum sem rétta á í máli hans en hann er ákærður fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Réttarhöldin hófust í hollensku borginni Haag í morgun en Taylor mætti ekki fyrir réttinn. Verjandi hans las upp yfirlýsingu þar sem sagði að forsetinn fyrrverandi ætlaði ekki að taka þátt í því sem hann kallaði leiksýningu.

 

 

„Ég get ekki tekið þátt í leiksýningu sem virðir ekki fólkið í Líberíu og Síerra Leone," sagði í bréfinu frá Taylor. Verjandi Taylors tilkynnti að lestrinum loknum að forsetinn hyggðist héðan í frá verja sig sjálfur.

 

 

Taylor, sem er 59 ára gamall, er ákærður fyrir að hvetja til morða, nauðgana og limlestinga í borgarastyrjöldinni í Síerra Leone. Þá var hann forseti nágrannaríkisins Líberíu. Styrjöldin stóð í ellefu ár og þar týndu 50 þúsund manns lífi.

 

 

Forsetinn fyrrverandi hefur lýst sig saklausan af öllum ákæruliðum. Saksóknarar í málinu vona að réttarhöldin sendi þau skilaboð að enginn sé óhultur þegar kemur að ákærum fyrir glæpi gegn mannkyninu, ekki einusinni þjóðhöfðingjar.

 

 

Julia Sebutinde, dómarinn í málinu segir að réttarhöldin haldi áfram þrátt fyrir að Taylor hafi ekki látið sjá sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×