Enski boltinn

Mourinho: Mikel var kóngurinn

John Obi Mikel hafði betur í baráttunni gegn Paul Scholes í bikarúrslitaleiknum í gær.
John Obi Mikel hafði betur í baráttunni gegn Paul Scholes í bikarúrslitaleiknum í gær. MYND/Getty

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að frammistaða nígeríska miðjumannsins John Obi Mikel í bikarúrslitaleiknum gegn Chelsea í gær hafi verið ótrúleg og að "strákurinn" hafi verið kóngurinn í leiknum. Mourinho hélt einnig áfram að tala um hvernig tímabilið hjá liði sínu hefði getað orðið án meiðslavandræða.

Enskir fjölmiðlar segja að helsta ástæðan fyrir slökum leik Man. Utd. hafi verið sú staðreynd að miðjumennirnir Paul Scholes og Cristiano Ronaldo hafi aldrei komist í takt við leikinn. Mourinho segir að það hafi ekki síst verið vegna stórleiks John Obi Mikel, sem varð tvítugur fyrir aðeins nokkrum vikum.

"Að mínu mati var það strákur sem var kóngurinn í leiknum," sagði Mourinho og átti þar við hinn barnslega Mikel, sem kom til Chelsea síðasta sumar frá norska liðinu Molde. "Hann stjórnaði leiknum eins og hann vildi, allt spil fór í gegnum hann og hann réði hraðanum algjörlega. Hann var ótrúlegur," segir Mourinho.

Portúgalski knattspyrnustjórinn notaði einnig tækifærið og sagði að miðað við öll þau meiðslavandræði sem liðið hafi orðið fyrir í vetur væru tveir bikartitlar, undanúrslit í Meistaradeild og 2. sæti deildarinnar árangur sem væri vel viðunandi.

"Við getum spurt okkur hvað við hefðum getað gert ef við hefðum ekki verið að missa leikmenn í meiðsli viku eftir viku. Hvað ef Peter Cech hefði ekki verið frá í fjóra mánuði, ef John Terry hefði verið með allt tímabilið, ef Richardo Carvalho hefði getað spilað alltaf, ef Michael Essien hefði ekki neyðst til að spila í vörninni og Robben og Ashley Cole hefðu ekki þurft að spila haltir. Hvaða árangri hefðum við getað náð án þessa vandræða?" spurði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×