Enski boltinn

Kitson eyðilagði endurkomu Owen

Dave Kitson fagnar sigurmarki sínu fyrir Reading
Dave Kitson fagnar sigurmarki sínu fyrir Reading NordicPhotos/GettyImages

Michael Owen spilaði í kvöld sinn fyrsta leik með liði Newcastle í eitt ár þegar hans menn töpuðu 1-0 fyrir Reading á útivelli í ensku úrvalsdeildinni. Owen skoraði reyndar mark eftir 7 mínútna leik en það var dæmt af vegna rangstöðu. Það var Dave Kitson sem skoraði sigurmark Íslendingaliðsins eftir 52 mínútna leik og heldur liðið enn í von um sæti í Evrópukeppninni.

Leikurinn í kvöld byrjaði nokkuð fjörlega en eftir því sem á leikinn leið var lukkudýrið Kingsley hjá Reading líklega sá sprækasti á vellinum. Fígúra þessi sem er í ljónsgerfi, fékk tiltal frá dómaranum í leiknum fyrir að vera of nálægt hliðarlínunni. Newcastle fékk nóg af færum til að jafna leikinn en það tókst ekki eins og oft áður í vetur. Michael Owen spilaði allar 95 mínúturnar í leiknum í kvöld, en liðið missti bæði Emre og Antoine Sibierski meidda af velli.

Reading er í sjöunda sæti deildarinnar eftir sigurinn. Ívar Ingimarsson var í byrjunarliði Reading og spilaði allan tímann og Brynjar Björn Gunnarsson sömuleiðis - en honum var skipt útaf í uppbótartíma. Newcastle er í 12. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×