Enski boltinn

Thierry Henry skýtur föstum skotum á Tottenham

NordicPhotos/GettyImages

Litlir kærleikar eru milli grannliðanna Arsenal og Tottenham í norðurhluta Lundúna og nú hefur framherjinn Thierry Henry hjá Arsenal skvett olíu á eldinn með því að gera grín að leikmönnum Tottenham.

Tottenham og Arsenal mættust í deildinni fyrir tveimur vikum og þá náði Tottenham að tryggja sér 2-2 jafntefli með laglegu marki Jermaine Jenas í blálokin og var fögnuður þeirra hvítklæddu ósvikinn í kjölfarið. Henry segist furða sig á þessu.

"Það sem mér finnst fyndið er hvernig leikmenn Tottenham fagna eins og þeir hafi verið að vinna titilinn þegar þeir ná jafntefli gegn okkur. Mig langar að minna þá á það að enn eitt árið eru þeir ekki að ná sæti í Meistaradeildinni - svo ég furðaði mig á því hverju þeir væru að fagna svona innilega. Ég þurfti að líta tvisvar á markatöfluna til að fullvissa mig um að þeir hefðu ekki verið að tryggja sér sigur í leiknum - slíkur var fögnuður þeirra.

Þegar ég skoraði gegn þeim í fyrra, fagnaði ég af þvi markið hafði sérstaka þýðingu af því markið gaf okkur möguleika á sæti í Meistaradeildinni - ekki barra af því ég jafnaði gegn Tottenham," sagði Henry drjúgur með sig þó hann hafi sjálfur lítið geta spilað á leiktíðinni.

"Það sama var uppi á teningnum þegar við unnum deildina á þeirra heimavelli árið 2004. Þeir jöfnuðu þá 2-2 og þegar ég sá leikmann þeirra fagna svo mikið að hann meiddist í látunum - spurði ég hann af hverju hann væri að fagna svona mikið. Það værum við sem værum að fagna því að vinna titilinn á þeirra eigin heimavelli," sagði Henry í viðtali í leikskrárhefti Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×