Enski boltinn

Gammarnir svífa yfir Elland Road

Stuðningsmenn Leeds voru drungalegir á svip í dag og ekki af ástæðulausu. Þetta fornfræga félag horfir nú fram á fall í C-deildina.
Stuðningsmenn Leeds voru drungalegir á svip í dag og ekki af ástæðulausu. Þetta fornfræga félag horfir nú fram á fall í C-deildina. NordicPhotos/GettyImages

Nú er aðeins ein umferð eftir af ensku Championship deildinni og þar eru Birmingham og Sunderland nánast búin að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni að ári. Leeds United, sem náði langt í Meistaradeild Evrópu fyrir nokkrum árum, er nánast dauðadæmt til að falla niður í 1. deild - eða C-deildina á Englandi.

Sunderland skaust í toppsæti deildarinnar í gær en Birmingham náði toppsætinu á ný í dag með 2-0 sigri á Sheffield Wednesday. Southend féll úr deildinni í dag og Leeds er nánast fallið eftir 1-1 jafntefli við Ipswich. Birmingham er með 86 stig í efsta sæti deildarinnar, stigi á undan Sunderland og fimm á undan Derby. Ef Derby tapar leiknum sem liðið á til góða á morgun - eru Sunderland og Birmingham bæði komin í úrvalsdeildina.

Leeds er þremur stigum á eftir Hull í fallslagnum og er með 9 mörkum lakari markatölu, svo ljóst er að liðið þarf meira en kraftaverk til að halda sér í deildinni. Áhorfendur Leeds réðust reiðir inn á völlinn á Elland Road í dag og lystu yfir óánægju sinni með dapra leiktíð.

Southend féll endanlega úr deildinni í dag eftir 3-1 tap á heimavelli fyrir botnliði Luton, sem þegar var fallið úr deildinni. West Brom, Wolves og Southampton eru í sætum 4-6 sem gefa sæti í úrslitakeppninni og unnu þau öll leiki sína í dag. Stoke, Preston og Colchester eiga öll fræðilega möguleika á að stela sæti í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×