Enski boltinn

Dramatík á Goodison Park - United í vænlegri stöðu

NordicPhotos/GettyImages

Manchester United er komið í afar vænlega stöðu í toppbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni eftir að liðið vann ótrúlegan sigur á Everton á útivelli í dag 4-2 eftir að hafa lent undir 2-0. Á sama tíma gerði Chelsea 2-2 jafntefli við Bolton á heimavelli og því er forysta United orðin fimm stig á toppnum þegar aðeins þrír leikir eru eftir.

Everton náði forystu eftir aðeins 12 mínútur þegar aukaspyrna Alan Stubbs hrökk af Michael Carrick og í netið. Staðan var 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik og Everton fékk sannkallaða draumabyrjunn í síðari hálfleiknum þegar Manuel Fernandes kom liðinu í 2-0 á 50. mínútu.

John O´Shea minnkaði muninn fyrir United skömmu síðar eftir varnarmistök Ian Turner og eins og til að auka á dramatíkina var það svo fyrrum leikmaður Manchester United - Phil Neville - sem jafnaði metin með sjálfsmarki. Wayne Rooney fullkomnaði frábæran endasprett gestanna með marki á 79. mínútu og varamaðurinn Chris Eagles tryggði sigurinn í blálokin eftir sendingu frá Rooney. Sir Alex Ferguson dansaði stríðsdans af fögnuði á hliðarlínunni og veit að nú getur fátt komið í veg fyrir að hans menn fari með sigur af hólmi í deildinni.

Bolton komst yfir í leiknum gegn Chelsea á Stamford Bridge þegar Lubomir Michalik skoraði í sínum fyrsta leik í byrjunarliði. Salomon Kalou jafnaði skömmu síðar fyrir Chelsea og öflugur skalli hans hrökk svo af Jaaskelainen markverði og í netið á 34. mínútu. Heimamenn voru yfir 2-1 í hálfleik, en Kevin Davies jafnaði fyrir Bolton á 54. mínútu og setti stórt strik í reikninginn fyrir Englandsmeistarana. Bolton var í miklum vandræðum með meiðsli fyrir leikinn og var án sex fastamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×