Enski boltinn

Wenger: Skapið í Lehmann er vandamál

Jens Lehmann og Dimitar Berbatov eigast við í leiknum á laugardag.
Jens Lehmann og Dimitar Berbatov eigast við í leiknum á laugardag. MYND/Getty

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur viðurkennt að skapofsi markvarðarins Jens Lehmann sé vandamál. Lehmann fékk sitt áttunda gula spjald á tímabilinu í gær þegar hann lenti í ryskingum við Dimitar Berbatov, leikmann Tottenham.

Lehmann gaf Berbatov olnbogaskot þegar þeir áttust við í einni af hornspyrnum Tottenham í leiknum og þótti hann stálheppinn að sleppa með rauða spjaldið. Svo virðist sem að Wenger sé orðinn þreyttur á tilburðum þýska markvarðarins, og má leiða að því líkur að skapvonska hans sé ein helsta ástæðan fyrir því að honum skuli ekki hafa verið boðinn nýr samningur við félagið.

"Þetta er vandamál. Í hornspyrnum tel ég sérstaklega mikilvægt að tefja ekki leikinn of mikið því þá minnkar einbeiting leikmanna. Ég talaði við línuvörðinn og hann sagði mér að Lehmann hefði sett olnbogann í Berbatov. Auðvitað á hann ekki að gera það," segir Wenger.

Wenger varði þó einnig markvörð sinn og sagði hann ekki njóta eins mikillar verndar og aðrir markmenn í úrvalsdeildinni. "Ég veit ekki af hverju svo er en stundum finnst mér eins og dómurum sé í nöp við hann. Leikmenn andstæðingsins traðka á löppunum á honum en enginn tekur eftir því. En Lehmann tekur eftir því og tekur það inn á sig. Stundum bregst hann rangt við, vissulega, en mér finnst hann ekki njóta sömu verndar og aðrir markmenn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×