Enski boltinn

Curbishley: Leikurinn gegn Wigan ræður úrslitum

Alan Curbishley segir leikmenn West Ham búa yfir miklum hæfileikum sem hann sjái daglega á æfingasvæðinu. Það sé hins vegar ekki fyrr en nú sem hann sjái þá nýta þessa hæfileika í leikjum.
Alan Curbishley segir leikmenn West Ham búa yfir miklum hæfileikum sem hann sjái daglega á æfingasvæðinu. Það sé hins vegar ekki fyrr en nú sem hann sjái þá nýta þessa hæfileika í leikjum. MYND/Getty

Alan Curbishley, knattspyrnustjóri West Ham, var að vonum ánægður með lærisveina sína verðskuldaðan sigur þeirra á Everton í dag. Þetta var fjórði sigur West Ham í síðustu sex leikjum, og allir hafa þeir komið gegn liðum í efri hluta deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Wigan og segir Curbishley að sá leikur muni líklega ráða úrslitum um framhaldið.

"Enn einu sinni höfum við unnið lið í einu af efstu sex sætum deildarinnar. Mér fannst við spila virkilega vel og áttum sigurinn skilinn. Sigurinn í dag gefur okkur ennþá von, og vonin er mjög mikilvæg - ekki síst fyrir stuðningsmennina. En við erum enn í fallsæti og verðum að ná allavega 38 stigum til að forðast fall, að ég tel," segir Curbishley, en liðið hefur á skömmum tíma tapað illa fyrir Sheffield United og Charlton, helstu keppinautunum í fallbaráttunni.

"Ég er jafn undrandi á að við skulum ekki spila svona vel gegn liðunum í kringum okkur en það verður að breytast gegn Wigan í vikunni. Við verðum að vinna þann leik," sagði Curbishley, sem hrósaði markaskoraranum Bobby Zamora sérstaklega.

"Hann hefur skorað mörg frábær mörk upp á síðkastið en hann hefur verið meiddur og hann þarf á meðferð að halda fyrir hvern leik. Ég held að hann hafi hins vegar mjög gott af hvíldinni á milli leikja og þetta virðist bara henta honum vel," sagði Curbishley í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×