Erlent

Lögregla beitir kylfum gegn mótmælendum

Lögregla í Pétursborg í Rússlandi beitti í morgun kylfum gegn stjórnarandstæðingum sem safnast höfðu saman til þess að mótmæla einræðistilburðum Vladímírs Pútíns, forseta landsins. Lögregla í borginni hefur mikinn viðbúnað líkt og lögreglan í Moskvu gerði í gær þegar hún handtók vel á anna hundrað mótmælendur í höfuðborginni.

Hundruð lögreglumanna voru á götum Pétursborgar, næststærstu borgar Rússlands, í morgun vegna fyrirhugaðra mótmæla stjórnarandstæðinga í borginni. Talið er að um 3000 manns hafi safnast saman í miðborg Pétursborgar til að mótmæla stjórnarháttum í Rússlandi.

Lögregla lét svo til skarar skríða gegn mótmælendum. Hefur Reuters-fréttastofan eftir vitnum að lögregla hafi beitt kylfum gegn mótmælendunum og var um 150 þeirra smalað upp í bíl og ekið á brott.

Stjórnarandstæðingarnir í Pétursborg fylgdu í fótspor félaga sinna í Moskvu sem í gær söfnuðust saman til mótmælagöngu. Um tvö þúsund mótmælendur voru þar, þar á meðal Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák og einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar.

Hann var í hópi um 170 manna sem lögregla í Moskvu handtók í gær fyrir að taka þátt í mótmælunum. Kasparov var í lögreglunnar í nokkrar klukkustundir og var svo leiddur fyrir dómara þar sem hann var sektaður um jafnvirði 2500 króna fyrir að raska almannafriði.

Yfirvöld bönnuðu bæði mótmælin í gær og í dag en stjórnarandstæðingar segja að stjórnvöld í Kreml hafi nú sýnt sitt rétta andlit og sannað að þau vilji fótumtroða lýðræði í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×