Erlent

Danir kvarta minna yfir fríblöðum

Frá skrifstofum Nyhedsavisen.
Frá skrifstofum Nyhedsavisen. MYND/Alda Lóa
Danski samgöngumálaráðherrann hefur fallið frá þeirri hugmynd að setja sérstök lög til að koma í veg fyrir að fríblöðum sé dreift inn á dönsk heimili. Upphaflega settu margir Danir sig gegn því að fá fríblöðin óumbeðið heim til sín og bárust samgöngumálaráðuneytinu yfir tvö hundruð kvartanir í hverjum mánuði vegna þessa. Snarlega hefur hins vegar dregið úr kvörtunum að undanförnu og voru þær rétt um eitt hundrað í síðasta mánuði.Minnst er kvartað yfir dreifingu Nyhedsavisen.

Lengi vel lá fyrir að dönsk stjórnvöld yrðu að grípa til lagasetninga til að koma í veg fyrir fríblöðunum yrði dreift inn á heimili. Hafði danski samgöngumálaráðherrann gefið fríblöðunum fjórum frest til 1. apríl síðastliðinn til að koma sínum málum í lag. Helstu umkvörtunarefnin sneru að því blöðin voru sett í póstkassa og inn um lúgur þvert á merkingar sem gáfu til kynna að þeirra væri ekki óskað.

Að sögn Flemming Hansen, samgöngumálaráðherra Dana, hefur kvörtunum fækkað það mikið að ástæða sé til að ætla að blöðin hafi tekið sig verulega á í þessu efni. Í samtali við vefútgáfu Politiken nefnir ráðherrann sérstaklega dreifingu á Nyhedsavisen sem hann segir til fyrirmyndar. „Keppinautar Nyhedsavisen gætu lært margt af þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×