Enski boltinn

Newcastle og Arsenal skildu jöfn

Richard Dunne, fyrirliði Man. City, hefur betur í baráttu við Heiðar Helguson hjá Fulham í leik liðanna í dag.
Richard Dunne, fyrirliði Man. City, hefur betur í baráttu við Heiðar Helguson hjá Fulham í leik liðanna í dag. MYND/Getty

Arsenal náði aðeins jafntefli gegn Newcastle í viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni og er nú búið að hleypa Bolton óþarflega nálægt sér í baráttunni um fjórða sæti deildarinnar, það síðasta sem gefur sæti í Meistaradeild Evrópu. Arsenal til happs náði Bolton sömuleiðis aðeins jafntefli gegn Everton í dag, en einu stigi munar á milli liðanna.

Arsenal er þó í mun betri stöðu sé litið til þess að liðið á tvo leiki til góða, á sjö leiki eftir á meðan Bolton á aðeins eftir að spila fimm leiki. Eftir leiki dagsins er Liverpool komið í þægilega stöðu í þriðja sæti deildarinnar, fimm stigum á undan Arsenal en hefur þó spilað einum leik meira.

Arsenal náði sér ekki á strik gegn Newcastle í dag og annan leikinn í röð náði liðið ekki að koma boltanum inn fyrir marklínu andstæðinganna. Bolton og Everton skildu jöfn, 1-1, þar sem framherjarnir Kevin Davies hjá Bolton og James Vaughan hjá Everton skoruðu mörkin í fyrri hálfleik.

Heiðar Helguson og félagar í Fulham réðu ekkert við leikmenn Manchester City þegar liðin mættust í London í dag og máttu þola 3-1 ósigur. Heiðar Helguson var í byrjunarliðinu en fór af velli á 58. mínútu. Þá skildu Aston Villa og Wigan jöfn, 1-1.

Fyrr í dag hafði Watford borið sigurorð af Portsmouth og síðar í dag mætast Charlton og Reading.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×