Enski boltinn

Zamora spilar sárþjáður

Bobby Zamora er aðalmaðurinn hjá West Ham í augnablikinu.
Bobby Zamora er aðalmaðurinn hjá West Ham í augnablikinu. MYND/Getty

Alan Curbishley hjá West Ham segir að leikmenn sínir séu að fórna sér fyrir félagið á þessum lokaspretti ensku úrvalsdeildarinnar. Margir þeirra séu sárþjáðir af meiðslum og þurfi á stífri meðferð að halda fyrir hvern leik en allir vilji þeir leggja sitt af mörkum til að bjarga liðinu frá falli. Curbishley nafngreindi Bobby Zamora sérstaklega í þessu samhengi.

“Bobby hefur verið mjög slæmur í hnénu undanfarnar vikur en hann hefur pínt sig til að spila síðustu leiki. Það er aðdáunarvert,” segir Curbishley, en Zamora skoraði meðal annars sigurmarkið gegn Arsenal á laugardag og hefur staðið sig mjög vel að undanförnu.

“Hann er að spila eins vel og hver annar sóknarmaður í þessari deild. Við þurfum að undirbúa hann vel fyrir leiki til að hann endist eitthvað inni á vellinum. Helsta lausnin er að leyfa honum að hvíla á milli leikja,” segir Curbishley, en Zamora æfir lítið sem ekkert þessa dagana.

West Ham mætir Sheffield United í úrvalsdeildinni um næstu helgi í leik sem mun ráða miklu um hvort liðið nær að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×