Enski boltinn

Ferguson: Chelsea mun misstíga sig

Alex Ferguson er að reyna að hræða Mourinho og félaga.
Alex Ferguson er að reyna að hræða Mourinho og félaga. MYND/Getty

Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur litlar áhyggjur af minnkandi forskoti sinna manna á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, en eftir tap liðsins gegn Portsmouth í gær munar aðeins þremur stigum á Man. Utd. og Chelsea. Ferguson býst fastlega við því að Chelsea eigi eftir að tapa stigum í þeim leikjum sem eftir eru.

“Það sem skiptir máli er að við erum ennþá þremur stigum á undan Chelsea og það er lítið eftir af mótinu. Ef mér hefði verið boðin þessi staða áður en deildin hófst í haust hefði ég þegið hana með opnum örmum,” segir Ferguson.

“Hver einasti leikur sem er eftir núna er eins og bikarúrslitaleikur. Það skiptir engu máli hver andstæðingurinn er, allir leikir eru jafn mikilvægir,” sagði Ferguson, en eftir undanúrslitin í bikarkeppninni fær Man. Utd. 10 daga frí sem skoski stjórinn segir að geti reynst mjög mikilvægt.

“Chelsea á líka mjög erfiða leiki í vændum á þessum síðustu vikum tímabilsins og ég hef trú á að einhver lið eigi eftir að láta Chelsea þjást. Ég á erfitt með að sjá þá fara í gegnum sex leiki án þess að tapa stigum,” segir Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×