Erlent

Sjóliðarnir græða á sögu sinni

Bresku sjóliðunum fimmtán sem fangaðir voru af Írönum hefur verið gefið leyfi til að selja fjölmiðlum sögu sína. Breskir fjölmiðlar telja að greiðslur til þeirra vegna þessa muni nema milljónum íslenskra króna.

Varnamálaráðuneytið segir að þessi óvenjulega ákvörðun hafi verið tekin í ljósi sérstakra aðstæðna þessa þrettán daga sem sjóliðarnir voru í haldi Írana.

Sjóliðarnir voru teknir höndum 23. mars síðastliðinn á Persaflóa. Íranar sögðu þá hafa siglt ólöglega inn í íranska landhelgi og fóru fram á að Bretar viðurkenndu það. Bretar neituðu því og kröfðust þess að þeir yrðu tafarlaust látnir lausir. Eftir þrettán daga ákváðu Íranar loks að sleppa sjóliðunum en létu með fylgja að ákvörðunin væri gjöf til Breta. Á blaðamannafundi sem sjóliðarnir héldu eftir heimkomu sína sögðust þeir hafa verið beittir harðræði af Írönum. Stjórnvöld í Íran hafa neitað því og sagt fréttamannafund sjóliðanna áróðurssýningu hersins.

Ákvörðunin um að leyfa sjóliðunum að selja sögu sína gæti vakið upp gagnrýni meðal hermanna sem staðið hafa í víglínunni í Afganistan og Írak. Margir þeirra hafa upplifað mikil átök en hafa mátt selja sögu sína líkt og sjóliðarnir.

Fréttastofa Sky telur að greiðslur til sjóliðanna muni nema milljónum íslenskra króna. Talið er að eina konan í hópnum Turney muni geta búist við dágóðum greiðslum þar sem saga hennar hefur nú þegar vakið mikla athygli fjölmiðla.

Sunday Times greindir frá því að hluti hermannanna ætli að gefa 10% af hagnaði sínum til góðgerðamála .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×