Enski boltinn

Wenger: Þetta er ótrúlegt

Eggert Magnússon og David Dein, stjórnarmaður Arsenal, heilsast á leik West og Arsenal í dag.
Eggert Magnússon og David Dein, stjórnarmaður Arsenal, heilsast á leik West og Arsenal í dag. MYND/Getty

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, átti bágt með að skilja hvernig lærisveinar hans fóru að því að tapa á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni í dag eftir að hafa haft fádæma yfirburði nánast allan leikinn. Wenger segir úrslitin "ótrúleg" en Alan Curbishley, stjóri Charlton, hrósaði varnarleik sinna manna í hástert.

"Þetta er ótrúlegt. Við sköpuðum okkur að minnsta kosti 10 færi til að klára leikinn, ekki hálffæri heldur 10 opin færi sem við hefðum átt að nýta. Það er erfitt að skilja svona leiki," sagði Wenger.

"Þessi leikur var algjör einstefna frá fyrstu mínútu en mér finnst allt hafa unnið á móti okkur í dag. Ég trúði því ekki að við hefðum ekki náð að skora þegar leikurinn var flautaður af," sagði Wenger jafnframt.

Curbishley átti ekki til nægilega sterk orð til að lýsa frammistöðu varnarmanna sinna, en þetta var þriðji sigurleikur West Ham í röð og annar leikurinn í röð þar sem liðið heldur hreinu. "Robert Green í markinu var stórkostlegur þegar boltinn slapp inn fyrir fjögurra manna varnarlínu okkar, sem annars var frábær í leiknum. Þetta voru frábær úrslit," sagði Curbishley.

"Við höfum gefið sjálfum okkur tækifæri með þessum sigri. Leikurinn gegn Sheffield United um næstu helgi skiptir öllu máli upp á framhaldið. Leikmennirnir hafa trú á því að við getum sloppið við fall og stuðningsmennirnir trúa því að við getum það," sagði Curbishley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×