Enski boltinn

West Ham lagði Arsenal á útivelli

Brynjar Gunnarsson er hér í baráttu við Mark Gonzales, leikmann Liverpool, í leiknum í dag.
Brynjar Gunnarsson er hér í baráttu við Mark Gonzales, leikmann Liverpool, í leiknum í dag. MYND/Getty

Íslendingaliðið West Ham vann frækinn og jafnframt gríðarlega mikilvægan sigur á Arsenal á Emirates-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í dag og er liðið nú aðeins tveimur stigum frá því að komast úr fallsæti. Brynjar Björn Gunnarsson skoraði mark Reading í 2-1 tapi liðsins gegn Liverpool en hann og Ívar Ingimarsson léku báðir allan leikinn fyrir lið sitt í dag.

Það var framherjinn Bobby Zamora sem skoraði sigurmark West Ham á 47. mínútu gegn Arsenal í dag en þrátt fyrir mikla pressu heimamanna í síðari hálfleik náðu þeir ekki að finna leið framhjá Robert Green í marki gestanna. West Ham er nú komið með 29 stig í næst neðsta sæti deildarinnar en þeirra helstu keppinautar í botnbaráttunni, Sheffield Utd. tapaði á heimavelli fyrir Newcastle og er einnig með 29 stig. Charlton er í 17. sæti með 31 stig og þá er Wigan fjarri því að vera sloppið með 33 stig, en liðið tapaði 3-1 fyrir Bolton í dag.

Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir Arsene Wenger og lærisveina hans en á sama tíma og þeir misstu af þremur dýrmætum stigum sigraði Liverpool lið Reading á útivelli, 2-1. Alvaro Arbeloa kom Liverpool yfir með sínu fyrsta marki fyrir félagið en Brynjar Björn Gunnarsson jafnaði fyrir Reading á 47. mínútu. Hollenski framherjinn Dirk Kuyt var hetja gestanna með því að skora sigurmarkið á 86. mínútu.

Önnur úrslit í leikjum dagsins voru að Aston Villa vann mikilvægan útisigur á Blackburn, 2-1, og þá burstaði Middlesbrough lið Watford á heimavelli sínum, 4-1, þar sem Mark Viduka skoraði tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×