Erlent

Kerkorian býður í Chrysler

Chrysler býður upp á fáar spennandi nýjungar á bílasýningunni í New York. Hér er kassalaga nýr jeppi Jeep Compass.
Chrysler býður upp á fáar spennandi nýjungar á bílasýningunni í New York. Hér er kassalaga nýr jeppi Jeep Compass.

Milljarðafjárfestirinn Kirk Kerkorian lagði í dag fram formlegt tilboð um að kaupa Chrysler Group af DaimlerChrysler samsteypunni þýsku. Tilboðið hljóðar upp á 4,5 milljarða dollara í reiðufé. Þetta er í annað skiptið sem Kerkorian reynir að eignast Chrysler. Í fyrra skiptið bauðst hann til að kaupa bílaframleiðandann í félagi við fyrrverandi forstjóra, Lee A. Iacocca á 20 milljarða dollara. Hann var þá stærsti hluthafinn í Chrysler, með um 10% hlut, sem hann seldi svo þegar DaimlerBenz keypti félagið á 36 milljarða dollara þremur árum síðar.

Greiningaraðilar telja að félagið seljist nú á minna en helming þess verðs, því Chrysler hefur gengið illa. Félagið tapaði 1,5 milljörðum dollara í fyrra og situr t.d. uppi með miklar birgðir fjórhjóladrifinna bíla og pallbíla, sem er um 75% af sölunni. 18 milljarða dollara lífeyrisskuldbindingar hafa líka torveldað samninga við hugsanlega kaupendur. Kerkorian segist munu bjóða stjórnendum og UAW, sambandi bifreiðaverkamanna, eignarhlut í félaginu og í sameiningu muni þeir endurreisa félagið til langs tíma.

Kerkorian var þar til nýlega stærsti hluthafi Genaral Motors og reyndi þá að sameina G.M., Renault og Nissan, en mistókst.

Tilboð Kerkorian kemur daginn fyrir alþjóðlegu bílasýninguna í New York, sem verður opnuð á morgun, eins og tilboðið 1995. Kerkorian vill fá 60 daga einkarétt til samninga við Chrysler, en fleiri aðilar hafa verið taldir vilja bjóða í félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×