Enski boltinn

Wenger styður tillögur Benitez

NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segist styðja hugmyndir kollega síns Rafa Benitez hjá Liverpool um að leyfa varaliðum stóru félaganna að spila í neðri deildunum á Englandi. Jose Mourinho hefur einnig vakið máls á þessu, en varalið stóru félaganna í Evrópu spila mörg hver í neðri deildunum á meginlandinu.

Tillaga Benitez fyrir nokkru olli miklu fjaðrafoki hjá knattspyrnustjórum neðrideildarliða og sögðu þeir hana móðgun við lið sem spiluðu í deildunum. Stjórar stórliðanna í úrvalsdeildinni benda hinsvegar á að þetta sé þekkt fyrirbæri í löndum eins og Frakklandi, Þýskalandi og á Spáni og gefi yngri leikmönnum tækifæri til að spila reglulega í "alvöru" leikjum.

"Ég myndi fagna þessu. Hér áður var spilað annars vegar í varaliðsdeildum og hinsvegar í U-18 ára deildum. Þetta voru mjög mikilvæg fyrirbæri, en nú er U-18 ára deildin hinsvegar orðin að varaliðsdeild á meðan upprunalega U-18 ára deildin hefur orðið að engu. Margir af ungu leikmönnunum eru nú að spila í báðum deildum og það þýðir að þeir geta of lítið æft og þeir sem ekki ná í liðin fá ekki tækifæri til að reyna sig," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×