Enski boltinn

McClaren: Ég læt ekki flæma mig burt

NordicPhotos/GettyImages

Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, segist ekki ætla að láta neikvæða gagnrýni og hatursfulla stuðningsmenn flæma sig á brott úr starfi. Hann segir að aldrei hafi komið til greina að segja starfi sínu lausu á erfiðri síðustu viku.

Enska landsliðið þótti ekki sannfærandi í leikjum sínum gegn Ísrael og Andorra í undankeppni EM á dögunum og gagnrýnin á störf McClaren var í kjölfarið harðari en nokkru sinni.

"Mér datt aldrei í hug að hætta, ekki einu sinni þegar verst lét. Sumir af leikmönnunum voru greinilega hálf skelkaðir á viðbrögðum áhorfenda og voru hreint ekkert æstir í að fara aftur inn á völlinn," sagði McClaren um ástandið í búningsherbergjum í hálfleik gegn Andorra. Þar var staðan 0-0 og þótti sú staða ekki sæma einu besta landsliði heims gegn liði skipuðu áhugamönnum.

"Við stóðum saman í gegn um mótlætið og komum til baka sterkari. Við náðum að klára leikinn og sýndum hvað við getum," sagði McClaren, en þeir sem hafa séð Andorra spila gætu ef til vill sett spurningamerki við orð landsliðsþjálfarans - enda er landslið Andorra einfaldlega arfaslakt.

"Ég held að ég verði aldrei aftur fyrir öðrum eins svívirðingum á ævi minni, en þegar ég lít til baka má vera að þessi upplifun hafi gert mig að sterkari einstaklingi," sagði landsliðsþjálfarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×