Enski boltinn

Foster ætlaði að hætta

Ben Foster.
Ben Foster. MYND/Getty

Ben Foster, markvörður Man. Utd. og enska landsliðsins, segist hafa íhugað alvarlega að leggja hanskana á hilluna skömmu áður en Sir Alex Ferguson ákvað að kaupa sig. Foster, sem hefur staðið sig frábærlega sem lánsmaður hjá Watford í vetur, var á mála hjá Stoke áður þar sem hann fékk engin tækifæri.

Foster var fenginn til Stoke á sínum tíma af Guðjóni Þórðarsyni en var síðan seldur til Man. Utd. fyrir eina milljón punda sumarið 2005, þegar Stoke var ennþá í eigu Íslendinga. Á þessum tíma lék Foster undir stjórn fjögurra mismunandi knattspyrnustjóra, en aldrei fékk þessi núverandi enski landsliðsmarkvörður tækifærið.

“Ég var mikið meiddur og var ýmist lánaður til utandeildarliða eða fékk að dúsa á bekknum og spila með varaliðinu hjá Stoke. Ástandið var ömurlegt og ég hafði ekki hug á því að halda svona áfram til lengdar. Það kom mér því mjög á óvart þegar símtalið frá Ferguson barst,” segir Foster.

Uppgangur Foster síðan þá hefur verið með ólíkindum. Á rúmlega einu og hálfu ári er Foster kominn í hóp bestu markmanna landsins og telja sérfræðingar að það muni ekki líða langur tími þar til hann hefur yfirstigið Paul Robinson sem markvörður númer eitt hjá enska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×