Erlent

Munurinn á Sarkozy og Royal minnkar

Segolene Royal á kosningafundi í París í dag.
Segolene Royal á kosningafundi í París í dag. MYND/AP
Aðeins hefur dregið saman með Ségolène Royal, forsetaframbjóðanda sósíalista í Frakklandi, og helsta andstæðingi hennar, íhaldsmanninum og innanríkisráðherranum Nicolas Sarkozy, samkvæmt tveimur nýjum skoðana könnunum. Tölurnar benda hins vegar enn til þess að Sarkozy verði næsti forseti Frakklands.

Kannanirnar sem Ipsos/Dell og IFOP gerðu sýna að aðeins fjórir frambjóðendur eiga möguleika á að ná kjöri. Auk Royal og Sarkozy eru það miðjumaðurinn Francois Bayrou og hægriöfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen.

Skoðanakönnun Ipsos/Dell sýnir að Sarkozy fengi 29,5 prósent í fyrstu umferð kosninganna 22. apríl en Royal 25 prósent sem er prósentustigi meira en við síðustu skoðanakönnun stofnunarinnar. Í seinni umferðinni fengi Sarkozy hins vegar 52 prósent atkvæða og Royal 48 og hefur Royal unnið á sem nemur einu prósentustigi. 17 prósent hafa ekki gert upp hug sinn um það hvern þau ætla að kjósa.

Í skoðanakönnun IFOP fengi Sarkozy hins vegar 26 prósent í fyrstu umferð forsetakosninganna, sem er tveimur prósentum minna en í síðustu könnun, en Royal bætir við sig einu prósenti og mælist með 24 prósenta fylgi. Samkvæmt IFOP myndi Sarkozy svo fá 51,5 prósent í seinni umferð kosninganna en Royal 48,5 fimm en þar dregur saman með þeim um eitt prósentustig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×