Erlent

Safna undirskriftum gegn reykingabanni í Danmörku

MYND/Vilhelm

Andstaða við fyrirhugað reykingabann á veitingastöðum og krám í Danmörku sem taka á gildi um miðja ágústmánuð fer vaxandi eftir því sem greint er frá á vef Jótlandspóstsins. Þar segir að hópur veitingahúsaeigenda hafi nú hafið undirskriftasöfnun til þess að mótmæla banninu sem þeir segja að muni ganga að mörgum krám dauðum.

Haft er eftir kráareiganda í Velje að fjórir af hverjum fimm gestum á venjulegum krám séu reykingamenn og reykingabannið sé alvarlegt inngrip í félagslíf þess fólks og afkomu kránna.

Hafa nú þegar safnast um 200 undirskriftir frá eigendum kráa og veitingastaða en ætlunin er að afhenda þær heilbrigðisnefnd danska þingsins sem mun taka frumvarp um reykingabann til umfjöllunar í næsta mánuði. Breið samstaða er um frumvarpið á danska þinginu en með því er ætlunin að feta í fótspor fjölmargra ríkja sem bannað hafa reykingar á veitingastöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×