Erlent

Ísraelar segjast ekki munu semja við nýja þjóðstjórn Palestínumanna

Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu, hlýðir á Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna, á þinginu á Gasa í dag.
Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu, hlýðir á Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna, á þinginu á Gasa í dag. MYND/AP

Palestínska þingið kom saman til fundar í morgun til að greiða atkvæði um nýja þjóðstjórn Fatah og Hamas. Búist er við að skipan í embætti verði samþykkt. Ísraelar segja nýja stjórn styðja hryðjuverkamenn og við hana verði ekki samið.

Það var á fimmtudaginn sem leiðtogar Fatah og Hamas komust að samkomulagi um skipan ráðherra í þjóðstjórninni. Samið var um að óháðir fulltrúar sætu í iðnaðar-, fjármála- og utanríkisráðuneytinu. Helst var deilt um hver ætti að verða innanríkisráðherra en loks tókst að semja um það. Vonast er til að með nýrri ríkisstjórn verði bundinn endir á innbyrðis átök Palestínumanna og þar með muni vesturveldinn hætt að sniðganga heimastjórnina.

Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa gefið til kynna að viðhorf þeirra gætu mildast. Viðhorf einstakra ríkja er þó mismunandi. Ekki er víst að Frakkar og Rússar breyti afstöðu sinni og hefji samstarf við nýja stjórn. Bretar segjast aðeins ætla að vera í samskiptum við ráðherra sem teljist ekki Hamas-liðar.

Ísraelar hafa enga trú á nýrri þjóðstjórn. Hún afneyti ekki hryðjuverkamönnum og viðurkenni ekki tilvist Ísraelsríkis, því sé ekki hægt að semja við hana. Ísraelar ætla þó áfram að halda sambandi við Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×