Erlent

Palestínska þingið samþykkir myndun þjóðstjórnar

Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu, og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, takast í hendur á þingfundinum í dag.
Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu, og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, takast í hendur á þingfundinum í dag. MYND/AP

Fulltrúar Hamas-samtakanna og Fata-hreyfingarinnar á palestínska þinginu í Gasaborg samþykktu í dag myndun nýrrar þjóðstjórnar á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna en samkomulag um slíka stjórn náðist milli fylkinganna á fimmtudag.

Atkvæðagreiðslan fór fram með handauppréttingu og samþykktu 87 þingmenn að styðja ríkisstjórnina. Alls eiga 132 menn sæti á þinginu en 41 þeirra situr í fangelsi í Ísrael, þar af 37 frá Hamas-samtökunum.

Vonast er til að með nýrri ríkisstjórn verði bundinn endi á innbyrðis átök Palestínumanna sem kostað hafa hundruð manna lífið frá því að Hamas-samtökin sigruðu í þingkosningum í fyrra.

Einnig er vonast til að Vesturveldin hætti að sniðganga heimastjórn Palestínumanna. Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa gefið til kynna að viðhorf þeirra gætu mildast en viðhorf einstakra ríkja er þó mismunandi. Til að mynda hafa Ísraelar enga trú á nýrri þjóðstjórn og segjast ekki geta samið við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×