Erlent

Velgengni Obama rakin til stuðnings Opruh

Barak Obama, forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, hefur náð forskoti á Hillary Clinton í Iowa þar sem forkosningar verða 3. janúar. Velgengni Obama þykir mega þakka nýtilkomnum stuðningi þekktustu fjölmiðlakonu í heimi - Opruh Winfrey.

Ekki má á milli sjá hvor dró fleiri í salinn í Des Moines í Iowa fylki, Barak Obama eða Oprah Winfrey.

Kannanir sýna að sautján prósent kvenna, 28 prósent blökkumanna og 26 prósent Bandaríkjamanna undir þrítugu segja að þeir séu líklegri til að greiða atkvæði með frambjóðanda sem hafi stuðning Opruh.

Oprah féllst á að ferðast með frambjóðandanum í tvo daga. Obama vonast einkum til að það verði til að laða konur til stuðnings við sig en þær hafa í könnunum verið hallar undir Hillary Clinton sem enn er í forystu meðal demokrata á landsvísu.

En það dregur saman með þeim í New Hampshire, sem er líka með forkosningar í janúar. Forskotið sem Clinton hefur haft frá upphafi er því óðum að minnka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×