Erlent

Írakar endurskoða öryggisfyrirtæki

Öryggisverðir einkafyrirtækis í Írak standa á þaki byggingar. Í baksýn sést bandarísk Blackhawk þyrla.
Öryggisverðir einkafyrirtækis í Írak standa á þaki byggingar. Í baksýn sést bandarísk Blackhawk þyrla.

Yfirvöld í Írak segja að þau muni endurskoða stöðu allra öryggisfyrirtækja í einkaeigu sem stunda rekstur í landinu. Yfirlýsingin kemur eftir að byssubardagi öryggisvarða í Baghdad kostaði átta óbreytta borgara lífið. Ríkisstjórnin sagði að hún vildi komast að því hvort fyrirtækin færu eftir lögum í landinu.

Í gær skipuðu Írakar bandaríska fyrirtækinu Blackwater USA að hætta öllum rekstri og fara úr landi án tafar. Blackwater segir að öryggisverðir þess hafi beitt sjálfsvörn í byssubardaganum á sunnudag. En innanríkisráðuneyti Íraks segir að mennirnir hafi skotið af handahófi á óbreytta borgara á mannmörgu torgi í höfuðborginni. Lögreglumaður og saklausir borgarar létust í bardaganum.

Verðir Blackwater fyrirtækisins unnu við að vernda bandaríska embættismenn.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði að ákvörðununin hefði verið tekin vegna árásarinnar á íraska borgara. Fyrirtæki yrðu að virða lög í landinu.

Fréttaritari BBC í Baghdad segir að staða þúsunda öryggisvarða í Írak sé óviss. Verðirnir eru hvorki taldir borgarar né hermenn, þótt þeir séu með persónuskilríki frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×