Enski boltinn

Stuðningsmenn West Ham ánægðir með að Eiður sé orðaður við félagið

Aron Örn Þórarinsson skrifar
NordicPhotos/GettyImages

Stuðningsmenn West Ham hafa keppst um að lofa Eið Smára Guðjohnsen á stuðningsmannasíðum sínum á vefnum í dag í kjölfar frétta sem bárust í gær um að landsliðsfyrirliðinn væri opinn fyrir að ganga til liðs við West Ham. Þegar rýnt er í skoðanir þeirra sést að þeir sjá Eið Smára sem heimsklassaleikmann sem væri kjörinn fyrir liðið.

„Getum við klárað kaupin á Guðjohnesen í vikunni? Hann er svo sannarlega heimsklassaleikmaður og væri fullkominn til að leika við hlið Bellamy og Dean Ashton," segir Derbyiron.

„Eiður Guðjohnsen myndi vera stórkostlegur," segir Nypdatarn.

„Var að lesa að Guðjohnsen væri áhugasamur um að ganga til liðs við West Ham, það yrðu frábær kaup. Áfram Curbishley, þarna er maður sem við þurfum!!!" segir Egg_is_home.

„Eiður væri frábær fyrir okkur þar sem hann getur spilað sem fremsti maður og fyrir aftan framherjana," segir Mikeyo.

„Ánægjulegt að heyra fréttirnar með Guðjohnsen. Ég met hann meira en Anelka og McCarthy þó að þeir séu báðir góðir," segir kadmat.

„Það væri frábært að fá Guðjohnsen. Ég verð að viðurkenna að ég hafði hugsað um að það væri furðulegt að hann væri eini framherjinn á plánetunni sem við höfðum ekki verið orðaðir við síðastliðinn mánuð vegna íslensku eigendanna," segir Bearinthewoods.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×