Erlent

Sprengjum varpað á barnaþorp

SOS-barnaþorpið í Mogadishu.
SOS-barnaþorpið í Mogadishu.

Sprengjum var varpað á SOS-barnaþorp í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu á laugardag. 15 Íslendingar eru stuðningsaðilar barna í þorpinu. Eitt barn og SOS-móðir slösuðust lítillega í árásinni en öryggisvörður í þorpinu er alvarlega særður og er hann nú á sjúkrahúsi Rauða krossins.

Í tilkynningu frá SOS-barnaþorpum segir að átökin hafi byrjað kl.15 að staðartíma. „Um stundarfjórðungi síðar lenti sprengjuvarpa á þorpinu. Öryggisvörður slasaðist alvarlega og var hann fluttur á sjúkrahús Rauða krossins til aðhlynningar." Annar öryggisvörður, ein SOS-móðir og eitt barn hluttu minniháttar meiðsl og hafa þegar fengið aðhlynningu á SOS-sjúkrahúsinu í borginni að því er segir í tilkynningu. Ekki hefur verið tilkynnt um skemmdir á þorpinu sjálfu.

Ástandið í borginni hefur verið spennuþrungið undanfarið að því er segir í tilkynnigunni og er þetta í annað skiptið á þessu ári sem sprengju er varpað á þorpið. „Móðir og barn hafa þó ekki orðið fyrir meiðslum fyrr en nú."

Þorpið lenti einnig í sprengjuregni í apríl síðastliðnum.

Fyrra atvikið átti sér stað í apríl sl. þegar sprengjur lentu á þorpinu og SOS-sjúkrahúsið varð fyrir skemmdum. „Þá varð mannlaust kennarahús fyrir lítilsháttar skemmdum. Sprengjubrot lentu einnig á fótboltavelli þorpsins sem til allrar hamingju var ekki í notkun. Mæður og börn voru flutt úr þorpinu og komið fyrir á öruggum stað. Þau fluttu síðan aftur í þorpið í byrjun maí og átökin nú um helgina eru þau alvarlegustu í þessu hverfi síðan þá."

Þá segir að SOS-barnaþorpin séu nú að meta ástandið í borginni og munu samtökin grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að tryggja öryggi barnanna og starfsmanna þorpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×