Erlent

Leikföng innihalda sömu efni og í nauðgunarlyfi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Toys 'R' Us í Kópavogi tóku umrætt leikfang úr sölu.
Toys 'R' Us í Kópavogi tóku umrætt leikfang úr sölu.

Milljónir Bindeez leikfanga sem framleidd eru í Kína hafa verið innkölluð í Bandaríkjunum og Ástralíu eftir að efni sem tengist nauðgunarlyfinu GHB fannst í þeim.

Bindeez leikfangið var tekið úr hillum leikfangaverslunarinnar Toys 'R' Us hér á landi fyrr í vikunni. Guðrún Kristín Kolbeinsdóttir verslunarstjóri verslunarinnar í Kópavogi segir að annar framleiðandi sé á þeim leikföngum sem seld séu til Ástralíu en Evrópu og að ekki þurfa að óttast efnin sem sé að finna í Bindeez leikföngum sem seld hafi verið hér á landi.

Fimm börn voru flutt á sjúkrahús í Ástralíu og Bandaríkjunum eftir að gleypa perlur úr Bindees leikfanginu sem kölluð eru Aqua Dots í Bandaríkjunum. Perlurnar eru húðaðar efni sem breytist í bannlyfið þegar það er gleypt. Börnin eru öll útskrifuð af sjúkrahúsi, en tvö þeirra fóru í dá um tíma eftir að hafa gleypt perlurnar. Leikföngin hafa nú verið bönnuð í löndunum tveimur.

 

Þetta er síðasta tilfellið í röð öryggismála sem tengjast vörum framleiddum í Kína. Leikfangaframleiðandinn Mattel hefur innkallað meira en 20 milljón leikföng framleidd í landinu á þessu ári.

Bindeez hefur reynst afar vinsælt og var meðal annars tilnefnt leikfang ársins í Ástralíu 2007.

Perlurnar áttu að vera húðaðar skaðlausu lími en við athugun í Ástralíu kom annað í ljós.


Tengdar fréttir

Toys 'R' Us á Íslandi tekur Bindeez úr sölu

Toys 'R' Us leikfangaverslunin, sem opnaði í Kópavogi fyrir skemmstu, hefur ákveðið að taka svokölluð Bindeez leikföng úr sölu. Þetta er gert eftir ábendingar um að hættulegt sé fyrir börn að stinga perlum sem fylgja leikfanginu upp í sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×