Erlent

Reynt að ráða Karzai af dögum

MYND/AP

Reynt var að ráða Hamid Karzai, forseta Afganistans, af dögum í heimsókn í Ghazni-héraði í austurhluta landsins. Karzai var að halda ræðu á fundi um uppbyggingu í héraðinu þegar eldflaugar lentu í nokkur hundruð metra fjarlægð frá honum.

Mikil skelfing greip um sig meðal fundargesta en Karzai var hinn rólegasti. Sagði hann fólkinu að vera rólegt og lauk ræðu sinni áður en öryggsiverðir fluttu hann á brott. Talið er að uppreisnarmenn talibana hafi skotið á forsetann.

Þetta er í þriðja sinn sem Karzai er sýnt banatilræði í embætti en eins og kunnugt er heyr afganski herinn og herlið á vegum NATO blóðuga baráttu við talibana í landinu sem vilja steypa ríkisstjórninni. Síðast í gær féllu 30 talibanar og tveir lögreglumenn í átökum í norðvesturhluta landsins nærri landamærunum að Túrkmenistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×