Enski boltinn

Leikurinn gegn Chelsea skiptir miklu máli

Alex Ferguson ræðir við fyrirliða sinn, Ryan Giggs.
Alex Ferguson ræðir við fyrirliða sinn, Ryan Giggs. MYND/Getty

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að það geti vel farið svo að leikur sinna manna gegn Chelsea á Stamford Bridge í byrjun maí geti farið langt með að ráða úrslitum ensku úrvalsdeildinnar í ár. Aðeins þremur stigum munar á liðunum í dag en Man. Utd. hefur mun betri markatölu, sem getur skipt miklu máli þegar uppi er staðið.

"Nú er leikurinn gegn Chelsea skyndilega orðinn mjög mikilvægur," segir Ferguson, en lærisveinar hans töpuðu óvænt fyrir Portsmouth á laugardaginn. Hingað til hefur Ferguson gert lítið úr þessari væntanlegu viðureign toppliðanna og minnt á að forskot Man. Utd. væri það stórt að liðið mætti í raun tapa leiknum án þess að það hefði svo mikil áhrif á stöðu liðanna.

Leikur Chelsea og Man. Utd. hefði átt að fara fram í dag en þar sem bæði lið eru í eldlínunni í Meistaradeildinni í vikunni var leiknum frestað.

"Ég ætla ekki að kvarta undan tapinu gegn Portsmouth en nú skiptir máli að leikmenn sýni þroskann sem þarf til að halda haus. Það eru margir mikilvægir leikir á næstunni og við eigum nokkra unga leikmenn sem þurfa að taka ábyrgð," segir Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×