Erlent

Fimm ára gamall maraþonhlaupari pyntaður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Budhia hefur lagt fleiri kílómetra að baki sér en flestir jafnaldrar hans.
Budhia hefur lagt fleiri kílómetra að baki sér en flestir jafnaldrar hans. Mynd/ AFP

Biranchi Das þjálfari hins fimm ára gamla indverska maraþonhlaupara Budhia Singh hefur verið ákærður fyrir að misþyrma drengnum. Das var handtekinn eftir að móðir drengsins tilkynnti að hún hefði fundið ör á syni hennar. Das neitar þessum ásökunum.

Budhia komst í heimsmetabækur í fyrra eftir að hafa gengið 65 kílómetra stanslaust á rúmlega sjö klukkustundum. Hann byrjaði að hlaupa 3 ára gamall. Budhia sagði í samtali við fjölmiðla að Das hefði refsað sér með því að halda sér lokuðum inni í herbergi án matar í tvo daga. Hann sagði jafnframt að Das hefði slegið sig með heitu járni og sýndi áverka á höndunum sem studdu frásögn hans.

Das heldur fram sakleysi sínu og fullyrðir að móðir drengsins sé að reyna að koma á sig sök. Móðirin heldur því fram að Das lemji Budhia reglulega og hafi eitt sinn bundið hann við girðingu og hellt heitu vatni yfir líkama hans. Das segir að Budhia sé honum sem sonur og þvertekur fyrir þessar ásakanir.

Í maí síðastliðnum komu barnaverndaryfirvöld í Orissa, heimahéraði Budhias, í veg fyrir að hann gengi 100 kílómetra um Austur-Indland í steikjandi hita. Þau fordæma þátttöku hans í maraþongöngum og segja að hann sé beittur pyntingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×